Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Tófú

Hvað er tófú?

Tófú er nánast alveg bragð- og lyktarlaust, gert úr hleyptri sojamjólk. Tófú er hvítt að lit og ekki ósvipað osti bæði í útliti og áferð. Hægt er að fá bæði stíft og mjúkt tófú í verslunum hér á landi.

Stíft (firm, eða extra firm)

– Fínt til að elda eitt og sér, en mikilvægt er að krydda eða marinera áður en það er eldað. Margar uppskriftir er að finna á netinu um hvernig á að vinna með eða meðhöndla stíft tófú, einnig eru nokkrar hugmyndir hér fyrir neðan.

Mjúkt (soft, silken)

– Oftast notað í sósur, ís eða eggjalausar hrærur.

Hvernig er best að vinna með tófú?

Margir sem eru að stíga sín fyrstu skref í grænkeramatargerð gera tilraunir með tófú og stundum mistekst það í upphafi. Mikilvægt er að vita að áður en maður notar tófú er best að pressa úr því vökvann og þurrka það þannig fyrir sjálfa matreiðsluna.

Þurrkun:

Takið tófúið úr pakkanum helst daginn áður, en það dugar að gera það nokkrum tímum áður. Vefjið það með klút og setjið þungan hlut ofan á það. Klúturinn dregur mikið af auka vökva úr tófúinu og gerir það þéttara og betra til neyslu. Einnig eru til sérgerð tól til þess að þurrka og pressa tofu, en þau eru ekki nauðsynleg.

Nokkrar tófu myndir úr eldhúsum íslendinga:

Dæmi um einfalda tófúrétti:

Pönnusteikt tófú í vefju

* Þurrkið vel og sneiðið.

* Kryddið að vild (paprikukrydd, pipar, og mexíkóskar kryddblöndur gefa gott bragð).

* Steikið báðar hliðar vel á pönnu upp úr jurtaolíu (t.d. sólblóma-, repju-, eða kókosolíu)

* Þegar tófúið er orðið þétt og vel steikt er gott að taka það af pönnunni og bera á það tómatmauk (e. tomato paste).

* Síðan er það skorið í strimla og steikt á ný í stutta stund.

* Berið fram í vefju með salsasósu og grænmeti.

Tófú sem álegg

*Þurrkið vel og sneiðið í þunnar sneiðar, gott er að nota ostaskera.

*Því betur þurrkað, því stökkara og betra er það í samlokunni.

*Kryddið að vild (paprika, pipar, og mexíkóskar kryddblöndur gefa gott bragð).

*Steikið vel á báðum hliðum upp úr jurtaolíu (t.d. sólblóma-, repju- eða kókosolíu)

*Berið fram í brauði með sósu og grænmeti.

 

Djúksteikt tófú

* Þurrkið vel og skerið í litla þríhyrninga.

* Marinerið í tamari sósu.

* Djúpsteikið.

* Berið fram með salati og grjónum.

Tofu/kasjú hakk

* Þurrkið vel og sneiðið í þunnar sneiðar með ostaskera eða rifjárni.

* Skerið sneiðarnar síðan í “tætlur” (litla bita), þarf ekki ef notast er við rifjárn.

* Kryddið með Mexíkó kryddblöndu (t.d. frá Casa Fiesta) – heil pakkning er málið!

* Steikið vel á báðum hliðum upp úr jurtaolíu (t.d. sólblóma-, repju- eða kókosolíu).

* Athugið, steikið tófúið alveg í gegn!

* Bætið 150 gr af kasjúhnetum á pönnuna og steikið þetta allt saman.

* Berið fram í vefju, sem hakk eða eitt og sér.