Samtök grænkera á Íslandi stuðla að jákvæðri ímynd og fjölgun grænmetisæta, standa vörð um hagsmuni þeirra og vinna að því að fjölga valkostum nauðsynja- og neysluvara án dýraafurða.


GANGA Í SAMTÖKIN

Upplýsingar fyrir Matsölustaði

Grænmetisætur eru vaxandi hópur á Íslandi sem vill eiga þess kost að fara út að borða og geta notið matar við hæfi. Þess vegna er gott að þekkja viðmið um mismunandi grænmetisfæði og vita hvað ber að forðast. Algengt er að grænmetisætur fari út að borða með hópum og því er það hagsmunamál fyrir veitingastaði að geta þjónustað hvern einstakling innan hópsins til að tryggja sér viðskiptin. Ekki má heldur gleyma því að fjöldi fólks nýtur þess að borða fjölbreytt grænmetisfæði þrátt fyrir að vera ekki endilega skilgreint sem grænmetisætur.

Samtök grænmetisæta á Íslandi mæla með því að á matseðli sé alltaf a.m.k. einn valkostur sem hentar grænmetisætum og vegan. Einnig er mikilvægt að geta aðlagað rétti sem þegar eru til á matseðlinum svo þeir henti vegan grænmetisætum, t.d. með því að að nota olíu í stað smjörs, hreinan jurtarjóma í stað rjóma o.s.frv. Vegan réttir henta breiðum hópi grænmetisæta auk þess sem fólk með eggja- og mjólkuróþol getur haft gagn af slíku framboði.

Merkingar á matseðlum:

Samtök grænmetisæta á Íslandi hvetja veitingastaði og mötuneyti til að merkja grænmetisrétti á matseðlum með eftirfarandi hætti:

(G) – Grænmetisréttur (Vegetarian)

(V) – Vegan

(RAW/V) – Hráfæði (Raw food)

(GF) – Án Glútens (Gluten free)

 

Nánari skýringar:

SGI_Logo_Single Hentar grænmetisætum

Til að matvara geti talist henta grænmetisætum má hún ekki innihalda nein hráefni úr slátruðum dýrum, hvorki vöðva né annað. Dýr eru ýmist ræktuð, villt eða húsdýr, þ.á.m. búfé, alifuglar, fiskur, skelfiskur, krabbadýr, froskdýr, möttuldýr, skrápdýr, lindýr og skordýr. Dæmi um hráefni úr dýrum er matarlím, öðru nafni gelatín, sem unnið er m.a. úr beinum og sinum spendýra. Einnig er ostahleypir sem unninn er úr kálfamögum algengt hráefni í osta og skyr.

SGI_Logo_Single Hentar vegan

Vegan grænmetisætur neyta engra afurða úr dýraríkinu, hvorki frá lifandi né slátruðum dýrum. Til viðbótar við leiðbeiningarnar hér að ofan þarf að gæta að því að ekki séu í matnum mjólkurvörur, egg, hunang eða hráefni sem innihalda slíkt eða eru unnin úr dýraafurðum. Dæmi um vörur sem dýraafurðir leyast í eru majónes (inniheldur egg) og pestó (inniheldur ost). Einnig er mikilvægt að lesa innihaldslýsingar ýmissa tilbúinna vara þar sem þær geta t.d. innihaldið gelatín (matarlím), svínafeiti (lard), kjöt- eða fiskikraft, egg, mysu, kasein eða hunang.

SGI_Logo_Single Krosssmit

Veitingastaðir verða að gæta þess að matvæli sem fullyrt er að henti grænmetisætum eða vegan hafi ekki komist í snertingu við matvæli eða leifar matvæla sem henta ekki grænmetisætum eða vegan, t.a.m. við geymslu, undirbúning, eldun eða framreiðslu. Þannig er nauðsynlegt að nota aðskilin áhöld og fleti fyrir hráefni í grænmetisrétti eða þrífa vel á milli. Til dæmis er mikilvægt að grænmetisréttur sé ekki steiktur á pönnu sem kjötmeti hefur verið steikt á nema hún hafi verið þrifin vandlega áður.

SGI_Logo_Single Hráfæði

Vegan hráfæði er (eins og hér að ofan) vegan grænmetisréttur unninn úr hráefnum sem ekki hafa verið hituð og við matargerðina má ekki hita matinn upp fyrir 48°C .

Hvernig mat vilja grænmetisætur?

Vegan grænmetisætur er mest vaxandi hluti grænmetisætufjölskyldunnar og vegan réttir henta einnig fyrir aðrar grænmetisætur. Því er gott að miða við þann markhóp þegar settur er saman matseðill.

Þegar bjóða á upp á rétti fyrir grænmetisætur er auðveldast að hafa grunninn vegan, því að hann hentar flestum tegundum grænmetisæta og getur verið frábær grunnur fyrir þá sem vilja viðbætur á réttinn. Matvæli sem henta venjulegum grænmetisætum innihalda ekki kjöt, alifugla, eða sjávarfang, en innihalda oft aðrar dýraafurðir og henta því ekki alltaf vegan grænmetisætum. Á meðan VEGAN réttur virkar vel fyrir allar grænmætisætur henta réttir handa hefðbundnum grænmetisætum ekki vegan fólki. Hafið í huga að flestar grænmetisætur kunna vel að meta hráefni úr jurtaríkinu og markmiðið þarf ekki að vera að elda mat sem líkist kjötréttum í áferð eða bragði.

Hér er hægt að nálgast greinargóðan lista og leiðbeiningar um hvernig er best að heilla vegan grænmetisætur á þínum veitingastað: (á ensku)

Download (PDF, 7.72MB)